145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[14:24]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hvorki ég né hv. þm. Helgi Hjörvar erum að fara að selja hlut ríkisins í Landsbankanum eða öðrum bönkum sjálfir. Það er ákveðið ferli sem það mál færi í á sama hátt og á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður stóð að því að setja inn í fjárlögin ár eftir ár að til staðar væri heimild til að selja hlut ríkisins eða hluta af eign ríkisins í Landsbankanum. Þetta er algerlega óbreytt síðan þá svo það á ekki að koma hv. þingmanni svo mjög á óvart að menn skuli viðhalda þessu fyrirkomulagi en treysta þar til gerðum stofnunum til að gæta hagsmuna almennings í málinu.