145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[15:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegu forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum atriðum. Við höfum lagt sérstaka áherslu á það í ráðuneytinu að líta til framkvæmdaratriða þessara mála. Af því að hv. þingmaður dregur fram fatlað fólk, sem er full ástæða til að gera, þá höfum við horft almennt á framkvæmdina. Við verðum og munum að sjálfsögðu taka þann hóp með inn í það. Það er mjög mikilvægt að hér sé rödd sem talar mjög ákveðið fyrir þann hóp þannig að engin hætta sé á því að menn horfi ekki á þær sérstöku þarfir sem þar eru, sem geta náttúrlega verið dálítið öðruvísi en þeirra sem eru alheilbrigðir, þótt ég hyggi reyndar að þeir sem eru í þessum aðstæðum hafi þolað slíka hluti að það sé erfitt fyrir heilbrigðar manneskjur að setja sig í þau spor.

Ég tek það sem hv. þingmaður segir og hlusta eftir því varðandi þá vinnu sem við erum í í ráðuneytinu. Eins er ég viss um að þeir þingmenn sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd líti á frumvarpið eins og það liggur fyrir og hvort ástæða sé til að hnykkja á einhverjum hlutum þar. Refsiréttarnefnd hefur auðvitað skipt lykilmáli í því að semja þetta frumvarp. Við fengum til þess þá bestu í því á Íslandi og lítum að sjálfsögðu til landanna í kringum okkur í nefndinni, ég nefndi Noreg áðan. Ég vonast til þess að grundvöllurinn sé góður. En alla vinnu er hægt að bæta og gera betri.