145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[15:12]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar á þskj. 505, 372. mál.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að efla þurfi nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og bæta samkeppnishæfi Íslands. Til að kveða skýrar á um áherslur stjórnvalda gagnvart nýfjárfestingum með hliðsjón af þróun undanfarinna ára legg ég fram tillögu þessa til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar.

Auknar nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi eru ein af forsendum fyrir langtímahagvöxt. Í skýrslu McKinsey frá árinu 2012 um íslenskt efnahagslíf er bent á að á Íslandi sé framleiðni um 20% lægri en í helstu samanburðarlöndum. Til að jafna þetta þurfi að bæta umhverfi fyrir nýfjárfestingar sem gætu skotið nýjum stoðum undir alþjóðageirann sem byggir á alþjóðlega samkeppnishæfum þekkingarfyrirtækjum með mikla framleiðni og verðmætasköpun. Með nýfjárfestingum er átt við fjárfestingar sem auka fjölbreytni atvinnulífsins, koma með nýja þekkingu og tækni og efla samkeppnishæfni landsins. Bæði getur verið um að ræða uppsetningu nýs verkefnis eða nýrrar starfsemi hér á landi, svo og sjálfstæða viðbót við eldra verkefni. Erlendar fjárfestingar síðustu áratuga hafa að miklu leyti beinst að nýtingu orkuauðlinda og uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Á síðustu þremur til fjórum árum höfum við hins vegar séð mikla fjölbreytni og jákvæðan vöxt í nýfjárfestingum hér á landi. Við sjáum að tækifærin leynast víða og áhugi til nýfjárfestinga á Íslandi fer vaxandi. Ég get nefnt sem dæmi nýlegar fjárfestingar á sviði líftækniiðnaðar, gagnavera, sólarkísils, frumkvöðlafyrirtækja í þekkingariðnaði, sprotafyrirtækja hvers konar, heilsutengdrar þjónustu og ferðamennsku. Þessi aukna fjölbreytni er mjög jákvæð þróun og mikilvægt að stjórnvöld styðji við hana eins og kostur er. Í raun erum við komin í þá eftirsóttu stöðu í dag að geta valið á milli nýfjárfestingarverkefna og því er mikilvægt að fyrir liggi ákveðin viðmið sem endurspegla áherslu stjórnvalda þegar kemur að nýfjárfestingum. Með slík viðmið að leiðarljósi er með markvissari hætti en áður unnt að leita leiða til að efla þá tegund af nýfjárfestingu sem er líklegust til að hafa hvað mest jákvæð efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif í för með sér til lengri tíma, þ.e. að við getum leyft okkur að forgangsraða verkefnum eftir okkar forsendum. Það er einmitt tilgangurinn með þingsályktunartillögunni.

Það er brýnt að við höldum áfram að leita nýrra leiða til að skapa fjölbreytt framtíðarstörf sem höfða til stærri hóps ungs fólks sem býr yfir þekkingu og menntun á ólíkum sviðum. Hafa þarf í huga að kringum nýfjárfestingar geta sprottið upp afleidd þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem ná að þróast út frá þeirri frumstarfsemi sem fjárfestingin leggur grunn að. Með þeirri stefnu sem hér er lögð fram í formi þingsályktunartillögu eru því sem áður segir sett fram ákveðin viðmið sem eiga að vera leiðarljós við nýfjárfestingar á Íslandi og endurspegla áherslur stjórnvalda. Nánar tiltekið kemur fram í þingsályktunartillögunni að Alþingi ályktar að efla skuli nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestinga. Í því skyni ber að leggja áherslur á nýfjárfestingarverkefni sem einkennast af eftirfarandi þáttum:

1. Byggja á styrkleikum Íslands og sérstöðu,

2. stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innleiddri starfsemi,

3. ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar,

4. styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og umhverfisviðmið,

5. skapa innlendan virðisauka og hafa margföldunaráhrif, t.d. með samstarfi við starfandi íslensk fyrirtæki og með fjárfestingum í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum,

6. skila sem mestum virðisauka og innleiða nýja þekkingu.

Í almennum athugasemdum um þingsályktunartillöguna er að finna nánari útskýringar og umfjöllun um þessi sex áhersluatriði og vísa ég til þeirra.

Í gegnum tíðina hefur stefnu stjórnvalda um nýfjárfestingar oft borið á góma og meðal annars hér á Alþingi. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á þeim nýmælum sem er að finna í þingsályktunartillögunni. Þar ber fyrst að nefna að lögð er áhersla á að stefnan beinist jafnt að innlendri fjárfestingu sem erlendri. Út frá jafnræðissjónarmiðum gengur ekki að erlendir fjárfestar njóti hagstæðari kjara en innlendir. Sú stefna um nýfjárfestingar sem ég mæli fyrir undirstrikar þá stefnubreytingu þar sem í henni er notast við hugtakið „nýfjárfesting“ en ekki „bein erlend fjárfesting“. Ekki er því gerður greinarmunur á því hvort fjárfestingin sé af innlendum eða erlendum uppruna enda ekki ástæða til. Önnur veigamikil breyting er að með stefnunni er stigið skref í þá átt að geta forgangsraðað nýfjárfestingarverkefnum. Sem áður segir fer eftirspurn vaxandi eftir ýmsum gæðum sem Ísland getur boðið fjárfestum sem opnar möguleika þess að velja besta kost ef margir eru í boði. Stefnan leggur áherslu á að nýfjárfestingarverkefni eigi að skila landi og þjóð hámarksárangri til lengri tíma og í þeim tilgangi eru sex áhersluatriði skilgreind eins og ég rakti áðan. Þau sex atriði geta leitt til meiri árangurs með aukinni fjölbreytni atvinnulífsins og eflingu innlendrar starfsemi. Áhersluatriði opna því möguleika á ákveðinni forgangsröðun. Þá ber að nefna að sérstök áhersla er lögð á aukna fjölbreytni og afleidda innlenda starfsemi. Lagt er til byggt verði á styrkleikum Íslands sem tíundaðir eru í almennum athugasemdum og sjónum sérstaklega beint að fjárfestingum sem falla vel að ímynd Íslands og geta af sér sjálfstæða afleidda atvinnustarfsemi, mynda hátt hlutfall verðmætra starfa sem styrkja innlendan þekkingargrunn, laða til sín vel menntað starfsfólk, skapa vel launuð störf og tengjast innlendu vísinda- og nýsköpunarumhverfi.

Í stefnunni er meðal annars byggt á fyrrnefndri skýrslu McKinsey um sóknarfæri Íslands til framtíðar, vinnu samráðsvettvangs um aukna hagsæld og tengdar áherslu aðila vinnumarkaðarins. Þannig er sérstök áhersla lögð á alþjóðageirann, nýsköpun, tækniþróun og þekkingariðnað. Grunnstefið er að nýfjárfestingin geti leitt til ávinnings sem er umfram það sem af fjárfestingunni sjálfri leiðir. Því er lögð áhersla á að af fjárfestingunni geti spunnist afleiddur iðnaður sem geti vaxið og dafnað á eigin forsendum.

Í stefnunni er mikil áhersla lögð á alþjóðageirann. Bent hefur verið á að hagvöxtur muni að miklu leyti byggjast á vexti alþjóðageirans sem er þekkingariðnaður og keppir á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Mikilvægt er því að beina athygli að sóknarfærum fyrirtækja í alþjóðageiranum í tengslum við nýfjárfestingar. Það hefur t.d. nýlega verið gert með stofnun álklasans sem er veigamikið skref í þá átt að til verði fleiri þekkingarfyrirtæki sem tengjast áliðnaðinum eins og gert hefur verið með íslenska sjávarklasanum og jarðhitaklasanum. Í alþjóðageiranum er að finna stærstu vaxtartækifæri íslensks atvinnulífs. Þar eru fyrirtæki af öllum stærðum og í öllum starfsgreinum. Þau eiga það sameiginlegt að byggja á hugviti frumkvöðla og framsækinni þekkingu og ná oft árangri vegna þess að þau geta vaxið hratt og þannig skipað sér í fremstu röð í alþjóðlegri samkeppni. Meðal fyrirtækja sem tilheyra alþjóðageiranum hér á Íslandi má nefna Actavis, Nox Medical, Mentis Cura, Marel, 66°N, Plain Vanilla, Íslenska erfðagreiningu o.s.frv.

Samkvæmt greiningu McKinsey sem birt var í tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld kemur fram að alþjóðageirinn stóð á árinu 2012 undir 12% af vergri landsframleiðslu, sem er tiltölulega lágt miðað það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Í tillögum samráðsvettvangsins kemur fram að framlegð alþjóðageirans þurfi að vaxa í 18% til að standa undir 3,5% hagvexti fram til 2030, sem samsvarar framlagi alþjóðageirans í Danmörku árið 2009. Til að ná þeim vexti þarf útflutningur alþjóðageirans að þrefaldast til 2030. Mikilvægt er að markaðs- og kynningarstarfsemi stjórnvalda tengd nýfjárfestingum sé í samræmi við þær áherslur sem fram koma í stefnunni og verður það nánar útfært í samstarfssamningnum við þar til bæra aðila eins og t.d. fjárfestingarsvið Íslandsstofu.

Herra forseti. Að lokum vil ég geta þess að sú tillaga til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar sem ég mæli hér fyrir var unnin í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í góðu samstarfi við Íslandsstofu, Samtök atvinnulífsins, Nýsköpunarmiðstöð og þá aðila sem skipa fagráð fjárfestingarsviðs Íslandsstofu, en innan þess hóps var það samróma álit aðila SA, ASÍ og fleiri að mikilvægt væri að stjórnvöld mótuðu sér skýra stefnu á þessu sviði á þeim grunni sem hér er lagður til. Ég lít því svo á að með þessari tillögu til þingsályktunar sé verið að stíga skref í farsæla átt til að efla með markvissum og skýrum hætti nýfjárfestingu í íslensku atvinnulífi og auka þar með samkeppnishæfni Íslands. Tel ég því að um tillöguna ætti að geta náðst góð sátt og samstaða hér á hinu háa Alþingi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þingsályktunartillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar.