145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið minnst á skýrslu UNICEF um kjör barna á Íslandi og ég vil koma inn á efnahagslegan skort barna hér á landi. Það má gera ráð fyrir því að rúmlega 6.100 börn líði efnahagslegan skort á Íslandi, það voru um 9,1% árið 2014 af íslenskum börnum frá 1 árs til 15 ára. Þetta hlutfall hefur tvöfaldast á síðastliðnum fimm árum. Þetta er auðvitað grafalvarlegt og okkur til umhugsunar sem getum haft áhrif á breytingar í þeim efnum. Helstu orsakirnar eru meðal annars húsnæðisskortur, búsetuform foreldra skiptir máli, staða barna í leiguhúsnæði er miklu verri og það skiptir líka máli hvernig staða foreldra er á vinnumarkaði. Foreldrar sem eru atvinnulausir hafa miklu minni burði til þess að framfleyta börnum sínum og börn við þessar aðstæður einangrast, þau hafa ekki sama aðgengi að tómstundum, eru jafnvel vannærð og hafa lítinn félagslegan stuðning. Skortur í æsku getur haft mikil áhrif til framtíðar fyrir þessi sömu börn.

Þess vegna segi ég: Við sem störfum á Alþingi getum haft mikil áhrif á það hvernig skattstefnan er hverju sinni sem snýr að jöfnuði, hvernig húsnæðisstefnan er hverju sinni. Það hefur ekki enn tekist að koma á fót húsnæðisstefnu sem mætir þessum hópum, fátækum foreldrum, það er búið að vera að tala um það frá því að þessi ríkisstjórn komst til valda. Svo er það launapólitíkin, láglaunafólk og líka hvernig búið er að öryrkjum, öryrkjum með börn, staða þeirra barna er mjög erfið og ekki tókst að bæta kjör öryrkja og aldraðra fyrir jólin. Það er því verk að vinna og við getum ekki liðið (Forseti hringir.) að börn á Íslandi, í þessu ríka samfélagi, búi við efnahagslegan skort.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna