145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að óska okkur öllum gleðilegs árs og fagna því að þing skuli vera komið saman á ný. Þá vil ég nota tíma minn í dag til að vekja athygli á fundi sem atvinnu- og byggðamálaráðherra og Byggðastofnun buðu þingmönnum til í gær. Tilefni fundarins var að nú er að hefjast vinna við gerð nýrrar byggðaáætlunar. Sú vinna byggir á lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir frá 30. júní 2015. Með tilkomu þeirra laga verður sú breyting helst að gildistími byggðaáætlunar er nú sjö ár í stað fjögurra og einnig að hún nær líka til höfuðborgarsvæðisins. Með setningu þessara laga var verið að lögfesta vinnulag sem menn hafa verið að þróa og vinna áfram um nokkurt skeið. Í raun má rekja forsögu þessa allt til þjóðfundarins sem haldinn var í Laugardalshöll 2009 og sambærilegra funda í öllum landshlutum árið 2010. Með tilkomu sóknaráætlana hafa aukin völd og ábyrgð á útdeilingu fjármagns á sviði byggða- og samfélagsþróunar verið flutt til þeirra sem nær standa verkefnum og þekkja best til aðstæðna.

Til að gera langa sögu stutta er staðan sú að nú hafa þrír farvegir verið sameinaðir í einn, þ.e. framlög til sóknaráætlana, vaxtarsamninga og menningarsamninga, og við erum með heildarlög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Þessu formi sem nú er búið að lögfesta er ætlað að bæta verklag við gerð stefnumótunar og áætlanagerðar á sviði byggðamála.

Ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar voru byggðamál áður eingöngu á hendi ríkisins og höfuðborgin stóð utan byggðamála. Það að líta á landið sem eina heild og öll byggðarlög sem mikilvægan hlekk í öflugu samfélagi okkar tel ég grunn að farsæld. Byggðaáætlun er á ábyrgð okkar allra og mikilvægt að sem flestir komi að gerð hennar. Ég fagna því að nú skuli áætlanir ná til lengri tíma. Það veitir meiri kjölfestu og er ekki háð dægursveiflu stjórnmálanna, heldur gefur okkur tækifæri til að móta stefnu til framtíðar svo hér megi áfram dafna byggð um allt land sem byggir á jafnrétti til búsetu. (Forseti hringir.) Munum að setja upp gleraugu byggðasjónarmiði í allri okkar vinnu og höldum áfram að ræða byggðamál því að þessi málaflokkur snertir okkur öll.


Efnisorð er vísa í ræðuna