145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson. Kveikjan er viðtal við hv. þingmann í Viðskiptablaðinu í haust, 17. september, þar sem yfirskriftin er: Ekki réttlætismál að jafna tekjur. Þar segir hv. þingmaður að það sé einkaskoðun hans þar sem Píratar hafa ekki beina afstöðu til málsins. Hann segir sjálfur að það að jafna tekjur sé ekki réttlætismarkmið í sjálfu sér.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé eitthvað sem hann hyggist færa inn í stefnu Pírata, t.d. fyrir næstu kosningar, að það sé ekki réttlætismál að jafna tekjur.

Síðan er hér önnur lína sem ég staldraði við. Nú vitna ég beint í þingmanninn, þ.e. ef Viðskiptablaðið hefur rétt eftir honum, með leyfi forseta:

„Mér finnst líka mikilvægt að enginn sé fátækur, það er ekki staðan í dag. Fullt af fólki er fátækt, sérstaklega öryrkjar, ellilífeyrisþegar og svo framvegis. Og auðvitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur.“

Ég geri ráð fyrir að þessi skoðun hans byggist á einhverri ákveðinni greiningu og nú langar mig að spyrja þingmanninn: Hversu stór er þessi síðastnefndi hópur? Fer hann stækkandi? Er hann kynbundinn? Eru fleiri konur en karlar þarna? Er hann svæðabundinn? Eru fleiri í þessum hópi á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landsbyggðinni?

Þá hlýt ég líka að spyrja hvort hv. þingmaður hyggist beita sér fyrir því innan píratahópsins að eitthvað verði sérstaklega gert fyrir þennan hóp og þá hvað ef Píratar hafa ekki stefnu í þessu máli heldur.

Mig langar því til að hv. þingmaður svari fyrir mig og þjóðina þeim tveim spurningum sem ég lagði hérna fyrir hann.


Efnisorð er vísa í ræðuna