145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni skýrslu sem kom fram í dag og sýnir að hlutfall íslenskra barna sem búa við skort hefur tvöfaldast. Mig langar að freista þess á þessum stutta tíma að setja upplýsingarnar í samhengi.

Við erum að tala um tvöföldun á hlutfalli íslenskra barna sem búa við skort á tímabilinu 2009–2014. Þetta gerist ekki einangrað, þetta gerist í samhengi við ákvarðanir og vilja stjórnvalda á hverjum tíma, m.a. þær ákvarðanir að lækka barnabætur, lækka vaxtabætur, hækka matarskatt og hækka ekki örorkubætur til jafns við aðra á vinnumarkaði. Allt þetta hefur áhrif á daglegt líf og kjör barna og allt þetta eykur skort í lífi íslenskra barna.

Það er algjörlega óásættanlegt annað en að stjórnvöld skjóti nú á sérstökum fundi þar sem afurðin verður ekki minni en sú að þar verði lögð fyrir raunveruleg áætlun um útrýmingu fátæktar barna á Íslandi. Við eigum ekki að líða það að börn líði skort.

Það er ekki sannfærandi þegar hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra berja sér á brjóst í áramótaávörpum og í áramótaþáttum og tala um að allt gangi betur á Íslandi þegar börnum sem líður illa hefur fjölgað svo um munar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna