145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Oxfam hefur um árabil gefið út skýrslu sem sýnir efnahagslega misskiptingu í heiminum. Á mánudaginn var voru sagðar fréttir úr síðustu skýrslu þeirra sem sýnir að misskiptingin í heiminum eykst enn og að bilið á milli þeirra ríkustu og þeirra fátækustu eykst mjög hratt. Svo virðist sem hagstjórn ríkja heims snúist um að gera þá ríkustu enn ríkari en ekki má gæta að almannahag. Þetta eru mjög alvarlegar fréttir.

Þetta gerist á sama tíma og hagfræðingar OECD og fleiri, þar á meðal nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hafa ítrekað bent á að aukinn jöfnuður bæti hag og heilsu allra, að þau ríki þar sem jöfnuður er mestur séu best í heimi og að þar beiti stjórnvöld skattkerfi til að ná jöfnuði. Hagfræðingarnir ráðleggja ríkjum heims að gera slíkt hið sama.

En hvað gera íslensk stjórnvöld í þessum efnum? Sinna þau þessu kalli? Nei, þvert á móti hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem fengið hefur með réttu viðurnefnið ríkisstjórn ríka fólksins, dregið úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Það hefur hún gert með því að fækka skattþrepum, hækka matarskatt og halda öldruðum og öryrkjum á lægri greiðslum en lágmarkslaunum. Hún hefur niðurgreitt húsnæðislán hjá þeim ríkustu, afnumið auðlegðarskatt með öllu og lækkað veiðigjöld á sama tíma. Á meðan á þessu stendur eru barnabætur skertar við 200 þús. kr. mánaðarlaun.

Fleiri skattkerfisbreytingar eru boðaðar og þær eru allar fyrir ríka fólkið.

Hæstv. forsætisráðherra talar ítrekað um að jöfnuður hafi aukist hér á landi og lætur að því liggja að það hafi gerst í tíð ríkisstjórnar hans. Engar mælingar eru til sem styðja þær fullyrðingar, hvorki íslenskar né erlendar. Af orðum hæstv. forsætisráðherra mætti ráða að honum fyndist jöfnuður mikilvægur og að ríkisstjórn hans ynni einmitt að auknum jöfnuði í samfélaginu. Það er augljóslega rangt og það að halda slíku fram eru hreinar blekkingar (Forseti hringir.) af hálfu hæstv. forsætisráðherra.


Efnisorð er vísa í ræðuna