145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

ásakanir þingmanns.

[15:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í fyrsta lagi nafngreindi ég ekki nokkurn mann. Mér finnst merkilegt að hv. þingmaður skuli taka þetta til sín. Ég fór og fletti upp og hafði flett upp og skoðað það sem allir vita, að gríðarlega miklir fjármunir hafa komið frá útgerðarfélögunum og runnið til Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans í prófkjörum. Ég er nú með hérna þessi gögn frá Ríkisendurskoðun. Það er alveg ljóst að það eru fleiri en eitt og fleiri en tvö útgerðarfélög sem hafa stutt hv. þingmann. Ég var ekkert að beina þessari gagnrýni minni sérstaklega að hv. þingmanni enda nafngreindi ég engan. Þingmenn þola kannski ekki að heyra það en það er klárlega þannig að ef maður er styrktur af fyrirtækjum mun það alltaf hafa einhver áhrif á dómgreind manns. Þess vegna hef ég verið alfarið á móti því að flokkar og þingmenn þiggi fjárstuðning frá fyrirtækjum. (Gripið fram í.)