145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[15:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni þann brýna vanda sem hjúkrunarheimili standa frammi fyrir um þessar mundir. Okkur hafa borist fréttir af því að þar sé víða mjög erfitt ástand. Við höfum líka fengið fregnir af því frá fundi, sem stjórnendur hjúkrunarheimila héldu þann 15. janúar, að stjórnendur þeirra áætli að það vanti allt að 2 milljarða kr. til viðbótar í málaflokkinn á þessu ári. Vitnað er m.a. til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2013 þar sem fram kom að vantaði milljarð í rekstur heimilanna. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt eru hjúkrunarheimilin á ábyrgð ríkisins þó að ýmist sveitarfélög eða sjálfseignarstofnanir eða aðrir aðilar reki þau. Þarna er augljóst að aðilar hafa ekki náð saman um það hvað sé eðlileg fjárhæð daggjalda fyrir hvern heimilismann sem dugi til að reka þessa mikilvægu þjónustu.

Fram kom í fréttum að þann 15. janúar hefði verið samþykkt ályktun þar sem óskað var eftir fundi með ráðherrum til að útbúa markvissa áætlun til að leysa vanda hjúkrunarheimilanna. Hæstv. heilbrigðisráðherra sem er hér til svara hefur lýst sig reiðubúinn til fundar. Mér finnst mikilvægt að við tökum þetta mál til umræðu á þingi því að það er alveg ljóst að eitthvað þarf að gera. Það þarf að fá nokkuð skýr svör um það frá hæstv. ráðherra. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort einhverjar áætlanir séu um það að hækka daggjöld ríkisins fyrir hvern heimilismann. Fjárveitingar til heimilanna miðast við daggjöldin. Ef ekki eru fyrirætlanir um það þurfa auðvitað að koma mjög skýrar leiðbeiningar frá stjórnvöldum um hvaða þjónustu eigi að skerða. Við vitum að það er mjög margbreytileg þjónusta sem er boðið upp á á hjúkrunarheimilum, læknisþjónusta, hjúkrun, sjúkraþjálfun, svo mætti lengi telja. Eðlilega spyrja þeir aðilar sem reka þessi heimili í umboði ríkisins: Hvaða þjónustu á þá að skerða? Þarf ekki að ræða saman um það?

Ég hjó líka eftir því að minnst var á að ræða þyrfti hvort auka ætti greiðsluþátttöku heimilismanna. Það hefur komið hér fram í svari frá hæstv. ráðherra, um greiðsluþátttöku íbúa öldrunarheimila, við fyrirspurn á 144. löggjafarþingi að það hefði verið stofnaður sérstakur vinnuhópur í tengslum við flutning öldrunarmála til sveitarfélaga til að skoða greiðsluþátttöku þar. Þá lá ekki fyrir niðurstaða úr því. Ég átta mig á að þetta er ekki allt á borði hæstv. heilbrigðisráðherra heldur skarast á við málaflokk hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. En þetta er eigi að síður stórpólitísk spurning þegar við horfum til framtíðar um það hvernig við ætlum að haga fjárveitingum til hjúkrunarheimila. Mig langar því líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti eitthvað upplýst okkur um það hvort einhverjar hugmyndir eru á borðinu um að hækka greiðsluþátttöku sjúklinga í þessum rekstri.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu mála hvað varðar lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila. Hér var gert ákveðið samkomulag á sínum tíma um að ríkið tæki yfir lífeyrisskuldbindingar 11 hjúkrunarheimila. Það hefur komið fram, m.a. í yfirlýsingu frá félagsfundi samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, að þessu uppgjöri er ekki lokið. Ég átta mig líka á því að þarna skarast verkefni hæstv. heilbrigðisráðherra á við verkefni hæstv. fjármálaráðherra en bið þó ráðherrann að upplýsa okkur um hvort eigi eftir að standa við þetta samkomulag. Það er líka mikilvægt að átta sig á því hvort það standi til að aflétta lífeyrisskuldbindingum af fleiri hjúkrunarheimilum. Við erum með talsvert fleiri hjúkrunarheimili undir en þau 11 sem ég nefndi. Hjúkrunarheimilin eru um það bil 45 eftir því sem mér skilst.

Tími minn hér í dag er naumur til að fara yfir þessa stöðu. Ég átta mig á að það eru mörg önnur brýn mál á sviði heilbrigðismála. Okkur hefur orðið tíðrætt um Landspítalann og heilsugæsluna. Hjúkrunarheimilin hafa auðvitað gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna, ekki síst þegar ég horfi til þess að á höfuðborgarsvæðinu sjáum við þá þróun að heimilismenn á hjúkrunarheimilum eru oft orðnir mjög veikir þegar þeir loksins fá pláss á hjúkrunarheimili. Þeir þurfa á mikilli þjónustu að halda. Það á örugglega við víðar um land. Það er ljóst að þessi þjónusta er kostnaðarsöm. Ég held að við þurfum að fá mjög skýra mynd af því hvort hæstv. ráðherra telur þá mynd sem hefur verið dregin upp sannferðuga, að það vanti 2 milljarða kr. inn í reksturinn á þessu ári, hvort við höfum einhverjar fyrirætlanir um að hækka daggjöldin frá ríkinu og hvernig mál standa í raun og veru í samtali ríkisins við þá sem hafa (Forseti hringir.) tekið að sér að annast rekstur þessara mikilvægu heimila fyrir velferðarþjónustuna í landinu.