145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[15:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa umræðu, sem er mjög mikilvæg. Ég ætla að reyna að svara þeim spurningum sem hún beindi til mín í undirbúningi þessa erindis.

Ég vil í fyrsta lagi taka fram að á árinu 2014, um mitt ár, gerðu ríkið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, og 11 hjúkrunarheimili, eins og hér kom fram, samkomulag um uppgjör lífeyrisskuldbindinga. Það var til að koma til móts við erfiða stöðu hjúkrunarheimila. Þarna var um að ræða afléttingu lífeyrisskuldbindinga að andvirði 6 milljarða kr. Því til viðbótar kom síðan framlag á árinu 2014 upp á 700–800 milljónir, ef ég man rétt, til jafnlaunaátaks, eins og það var kallað þá, þannig að verulegur bati kom þar inn að hluta til. Hins vegar eru lífeyrisskuldbindingar við sveitarfélögin, vegna rekstrar hjúkrunarheimila, óuppgerðar. Ég innti fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir því síðast í dag og fékk þau svör að ekki hefði unnist tími til að meta stöðu þeirra lífeyrisskuldbindinga sem falla þar undir.

Varðandi aðra spurninguna, um áform ráðherra, og um það hvernig hægt er að bregðast við nýlegum yfirlýsingum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, vil ég undirstrika að sjálfseignarstofnanir í eigu einkaaðila eru hluti af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og sambland þeirra og sveitarfélaga er í þessum ágætu samtökum.

Heilbrigðismálin og rekstur heilbrigðiskerfa eru með stærstu og viðamestu verkefnum hins opinbera á Vesturlöndum og ýmsir þættir valda stöðugum þrýstingi á útgjaldaaukningu þar og það leiðir að sjálfsögðu til stöðugrar glímu um fjármuni. Ég vil leyfa mér að fullyrða að stjórnvöld hafi á síðustu árum unnið að því að styrkja umræddan málaflokk. Á síðasta kjörtímabili var unnið við svokallaða leiguleið, endurbyggingu 11 hjúkrunarheimila. Á þessu ári var ég að tilkynna um áform um byggingu þriggja hjúkrunarheimila. Daggjaldagrunnurinn hefur verið styrktur. Auknir fjármunir hafa verið veittir til smærri hjúkrunarheimila o.s.frv.

Til viðbótar þessu vil ég leggja áherslu á að það eru inni auknar fjárheimildir til styrktar heilsugæslunni, heimahjúkrun þar, fjölgun námsstaða lækna í heilsugæslu, fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni o.s.frv. En að sjálfsögðu, og ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna það, eiga sum hjúkrunarheimilanna í rekstrarerfiðleikum og það er full ástæða, eins og ég hef lýst yfir opinberlega í kjölfar þessarar yfirlýsingar, til að fara yfir þá stöðu með forsvarsmönnum þessara heimila.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að aðstæður þessara heimila eru mjög mismunandi og sömuleiðis ríkisins, að sjálfsögðu, til að mæta þessum vanda. Skiljanlega eru skiptar skoðanir um það hvaða leiðir eigi að fara, en allt er til skoðunar í þeim efnum.

Ég vil nefna sérstaklega að það sem setur okkur þak í samningaviðræðum við heimilin eru fjárveitingar sem ákveðnar eru af Alþingi. Ég óskaði eftir því við Ríkisendurskoðun á árinu 2014 að stofnunin gerði sérstaka úttekt á afkomu heimilanna og óskaði enn fremur eftir tillögum frá stofnuninni um það hvernig við getum bætt þessi samskipti. Ég fékk þá greinargerð. Við höfum að hluta brugðist við henni með fjárhagslegum aðgerðum. Í öðru lagi vil ég nefna að ég fékk fjórar tillögur frá Ríkisendurskoðun um það sem hún taldi þurfa að bæta; gera þjónustusamninga við rekstraraðila allra hjúkrunarheimila, bæta upplýsingagjöf og aðgengi, tryggja að framkvæmd, færni og heilsumat sé samræmt og í fjórða lagi að ábyrgð á málefnum hjúkrunarheimila færist til sveitarfélaga.

Þjónustusamningar eru í vinnslu. Frá árinu 2009 var því frestað, með bráðabirgðaákvæði í lögum, að taka upp samningsgerð við rekstraraðila hjúkrunarheimila. Við afnámum það bráðabirgðaákvæði og frá og með árinu 2015 er skylda að vinna að samningum. Að því er unnið. Þeir hafa ekki tekist. Við erum að vinna í því að bæta upplýsingagjöfina og höfum sömuleiðis hafist handa við að endurskoða færni- og heilsumatið.

Ég vil allt að einu, því að tíminn flýgur frá manni í svona stuttum umræðum, nefna að ég vænti þess og vona að sú umræða sem hér verður hafin leggi okkur lið við það sem við eigum fram undan í viðræðum við rekstraraðila hjúkrunarheimilanna. Það er að mörgu að hyggja. En ég vil undirstrika það enn og aftur að við þurfum (Forseti hringir.) að ná samningi við rekstraraðilana um innihald þeirrar þjónustu sem þeim er ætlað að veita á grundvelli þeirra daggjalda sem þeim eru áskilin.