145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[15:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er hissa á að við höfum ekki fengið skýrari svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég er mjög hissa þegar hann reynir að afsala sér ábyrgð á ástandi hjúkrunarheimila með því að vísa í fjárveitingavald Alþingis. Það er hans sem ráðherra málaflokksins að koma með tillögur að fjárveitingum í samræmi við þörf. Það er hann sem ber ábyrgð á þessum málaflokki og á að koma með tillögur um fjárþörfina. Þær komu ekki.

En hvað kom inn í þingið? Á allra síðustu metrunum kom frumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar til að hægt væri að semja við hjúkrunarheimilin um svokölluð dvalarrými líka. Hraðinn á málinu var svo mikill að hvorki Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu né Sambandi íslenskra sveitarfélaga gafst rými til þess að senda inn umsagnir um málið. Þeim gafst varla tími til að lesa frumvarpið áður en þau þurftu að koma á fund velferðarnefndar. Þar komu fram, í því litla sem þau gátu tjáð sig, áhyggjur þeirra af fjárhagsstöðunni. Það var langt liðið á fjárlagaumræðuna og meiri hlutinn tók ekki við sér að neinu leyti í því. VG greiddi atkvæði gegn þessu frumvarpi og við í Samfylkingunni sátum einmitt hjá af því að okkur gafst ekki ráðrúm til að kynna okkur málið, enda umsagnaraðilar mættir á hlaupum með frumvarpið hálflesið í höndunum.

Það er ráðherrans að tryggja upplýsingaflæði um fjárþörf inn í málaflokkinn. Aðstæðurnar á hjúkrunarheimilum nú er ekki hægt að skrifa eingöngu á lífeyrisskuldbindingarnar. Þetta er víðtækari vandi sem þarf að bregðast við með auknum fjárheimildum strax á þessu ári.