145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Þegar við horfum á samfélag horfum við ekki bara á styrkleika þess heldur ekki síður hvernig samfélagið kemur fram við þá sem standa á veikari grunni. Þá erum við oft að hugsa um börn, þá sem búa við fötlun eða örorku og aldraða. Það er engin spurning að það er á ábyrgð opinberra aðila og í þessu tilviki ríkisins að halda utan um þjónustuna sem er veitt á hjúkrunarheimilum.

Ríkisendurskoðun hefur síðustu ár ítrekað bent á og rekið á eftir að gerðir yrðu þjónustusamningar við rekstraraðila hjúkrunarheimilanna. Þó að ríkið beri ábyrgð á málaflokknum er hann að miklu leyti í höndum sjálfseignarstofnana og sveitarfélaga. Eins og málshefjandi benti á hafa þessar sjálfseignarstofnanir núna, og sveitarfélögin reyndar árum saman, talað fyrir frekar daufum eyrum um að ríkið standi ekki undir kostnaðinum við þessi hjúkrunarheimili. Það er náttúrlega á ábyrgð ríkisins.

Ég fagna því að heyra hæstv. ráðherra tala um að átak sé í gangi við að gera þjónustusamninga, en þeir hafa ekki náðst. Ég þekki það sjálfur frá því fyrir nokkrum árum þegar ég starfaði á sveitarstjórnarstiginu í höfuðborginni að það var afskaplega erfitt að ná samningum um fjármuni til þessarar starfsemi. Í höfuðborginni fylgdust menn með því að milljónatugir — samtals var þetta á nokkurra ára tímabili komið vel á annað hundrað milljóna sem borgin hafði í raun og veru greitt með þjónustunni (Forseti hringir.) vegna þess að ríkið hafði ekki getað staðið við samninga eða ekki viljað gera það.