145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Með leyfi forseta ætla ég að byrja á að lesa minnisblaðið sem bæjarstjórn og fulltrúar Akraness lögðu til vegna fjárlagavinnu Alþingis fyrir árið 2016, en þar segir:

„Bæjaryfirvöld á Akranesi leggja áherslu á að Höfði, hjúkrunar- og dvalarheimili á Akranesi, sitji við sama borð og þau hjúkrunarheimili sem eru rekin sem sjálfseignarstofnanir hvað varðar lífeyrisskuldbindingar …“

Lífeyrisskuldbindingar Höfða eru gríðarlega háar og þungar fyrir rekstur stofnunarinnar og jafnframt fyrir kaupstaðinn. Höfði er samt ekki eina stofnunin sem á í þessum vanda, en þetta á almennt við um þær stofnanir sem falla undir Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um málið. Í ályktun sem fyrrgreind samtök sendu frá sér í kjölfar neyðarfundar sem haldinn var síðastliðinn föstudag segir að viðræður vegna þessara lífeyrisskuldbindinga séu vart hafnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann viti hvenær sé fyrirhugað að þessar viðræður verði. Afar nauðsynlegt er að viðræðurnar verði sem fyrst og sameiginleg lausn náist í þessu gríðarlega mikilvæga og stóra máli.

Í ályktun sem samtökin sendu frá sér segir jafnframt að ríkið hafi neitað undanfarin ár — ekki eingöngu örfá ár aftur í tímann heldur lengra aftur samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef — að greiða hjúkrunar- og öldrunarstofnunum húsaleigu og það hafi komið niður á fjárhag þeirra. Auk þessa kemur fram að rangar forsendur hafi verið notaðar til fjölda ára við útreikning verðlags og launabóta sem valdi því að daggjöld hafi ekki hækkað í réttu hlutfalli milli ára. Þetta hefur aukið á rekstrarvanda. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef sitja ákveðnar stofnanir ekki við sama borð og sjálfseignarstofnanir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé raunin. Ef svo er, hvers vegna?

Mikilvægt er að hæstv. heilbrigðisráðherra ásamt hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra fundi sem allra fyrst með stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu til að fara yfir stöðu mála, útbúa markvissa áætlun og leysa rekstrarvanda hjúkrunarheimila til (Forseti hringir.) framtíðar. Ég treysti hæstv. ráðherrum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fullkomlega til að leiða málið til lykta svo að farsæl lausn náist.