145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:13]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkið er alls ekki að standa sig í hjúkrunarheimilismálum og er ekki einu sinni að standa við lögbundnar skyldur sínar. Þetta ástand, fjárvöntunin í þessum geira, hefur farið hraðvaxandi undanfarin ár. Þetta er ekki ásættanlegt, sérstaklega ekki á tímum þegar til eru peningar því að góðærið er komið aftur. Ríkið hefur ekki enn gert þjónustusamning við hjúkrunarheimilin þrátt fyrir sína lögbundnu skyldu og fjárhagsstaða hjúkrunarheimilanna er víða svo slæm að því hefur nú verið lýst sem neyðarástandi. Það hefur ekki gerst áður.

Nú er talið að fjárvöntunin sé allt að 2 milljarðar árlega sem sárlega vantar í málaflokkinn. Þetta er óásættanlegt. Hagur landsins er að batna. Það er afgangur af ríkisfjárlögum sem nemur milljörðum. Við þær aðstæður er auðvitað siðferðisleg krafa að fjármunir séu nýttir til að tryggja sjálfsagða grunnþjónustu í velferðarkerfinu á borð við umönnun elstu þegna landsins á þeirra ævikvöldi. Það mál þolir enga bið.

Þau svör hæstv. heilbrigðisráðherra að undanförnu, að málið verði leyst með tíð og tíma eða eftir hentugleika, eru einfaldlega óásættanleg og ekki gott innlegg í þessa umræðu, hvað þá að reyna að varpa ábyrgðinni af herðum ríkisvaldsins eða ríkisstjórnarinnar yfir á Alþingi því að það vita allir hér hvernig valdsmörk liggja milli þingsins og ríkisstjórnarinnar.

Núna bíður gamalt fólk hundruðum saman og árum saman eftir hjúkrunarrýmum um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem spítalarnir streða við að útskrifa farlama fólk sem á ekki í nein önnur hús að venda. Þetta er gríðarlega stór vandi sem er líka bráðavandi og verður að leysast. (Forseti hringir.) Það er ekki nóg að leysa hann á höfuðborgarsvæðinu, það þarf auðvitað að byggja upp hjúkrunarheimili um allt land. (Forseti hringir.) Það eru mannréttindi að fólk geti fengið að eldast í heimabyggð og njóta samvista við ástvini og fjölskyldur.

Þetta er hægt, virðulegi forseti. Það er góðæri núna og á góðæristímum er óásættanlegt að landsmenn (Forseti hringir.) búi við neyðarástand í þessum málaflokki. (BirgJ: Heyr, heyr!)