145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er svo sannarlega mikið áhyggjuefni hversu rekstrarstaða hjúkrunarheimila víða um land er slæm. Mörg sveitarfélög hafa styrkt reksturinn með umtalsverðum fjárhæðum á ári hverju til að tryggja þjónustu við íbúa en til lengri tíma eru slíkar álögur á sveitarfélög, sem mörg hver ráða illa við útgjöld umfram lögbundin verkefni, algerlega óásættanlegar. Við verðum að greina vandann, leita lausna og innleiða þær hið fyrsta, því að tíminn vinnur alls ekki með okkur í þessu máli. Af þessari umræðu má heyra að við deilum þessum áhyggjum, enda er þetta mál ekki pólitískt heldur spurning um sanngirni, sanngirni gagnvart íbúum hjúkrunarheimila og sanngirni gagnvart sveitarfélögunum.

Fram hefur komið í viðtölum við hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson að hann tekur rekstrarvanda hjúkrunarheimila mjög alvarlega og er allur af vilja gerður til að finna viðeigandi lausnir til lengri tíma. Hann bendir jafnframt á að forgangsröðun stjórnvalda sé að efla heimaþjónustu og það er hið besta mál.

Í ályktun félagsfundar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu frá 15. janúar síðastliðnum kemur meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Til viðbótar þeim vanda sem hlýst af fjárskorti til reglubundins rekstrar, eru önnur vandamál sem taka þarf á sérstaklega. Ríkið hefur hingað til hafnað því að greiða hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum húsaleigu. Hefur það valdið því að ýmist hefur húsnæði legið undir skemmdum og er orðið úrelt, eða að heimilin sjálf hafa fjármagnað endurbætur en fá engar greiðslur til að standa undir þeim kostnaði. Sú aðstaða er ótæk og endar bara með ónýtum húsakosti og/eða greiðsluþroti.“

Að lokum vil ég undirstrika inntak þessa örstutta erindis míns sem er að okkur ráðamönnum ber skylda til að leysa rekstrarvanda hjúkrunarheimila og tryggja rekstrargrundvöll þeirra til framtíðar.