145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var kominn með sterkan grun sem mér þykir síðan hv. 4. þm. Suðurk., Unnur Brá Konráðsdóttir, hafa staðfest í ágætri og fróðlegri ræðu um þetta mál. Sú tilfinning og sá grunur er að það vanti hreinlega langtímaáætlun, að það sé engin langtímaáætlun þar sem við sjáum fyrir okkur hvernig við ætlum að haga málaflokknum til framtíðar. Við fyrstu sýn, ef maður lítur á málefnið og veit ekkert um það og hefur ekki fylgst með umræðunni, lítur þetta út eins og eitthvað sem ætti að vera löngu búið að koma á hreint á Íslandi og búið að laga, að það væri varanleg lausn á þessu til staðar. En auðvitað kemur þetta fólki ekki á óvart sem hefur heyrt af þessu vandamáli aftur og aftur. Mér finnst þetta hins vegar mjög úr takti við það hversu þróuðu samfélagi við búum í árið 2016.

Að því sögðu er ljóst að öldruðum mun fjölga mikið með tímanum og langtímaáætlun þarf að gera ráð fyrir því. Það eru fleiri þjóðir en við sem þurfa að velta fyrir sér því vandamáli og því legg ég til að við reynum að hugsa aðeins út fyrir kassann og skoða aðrar frumlegar hugmyndir sem aðrar þjóðir eru að velta fyrir sér vegna sama vanda, því að hann einskorðast ekki við Ísland.

Það verður að segjast eins og er að það er orðið heldur þreytt að heyra af einu vandamáli, sem á ekki aðeins við þennan málaflokk, og það er að ríkið fjármagni ekki það sem það ætlast til að sveitarfélög og stofnanir inni af hendi. Það finnst mér annað vandamál sem maður hefði haldið að væri komið á hreint, að búið bæri að finna út úr því hvernig ætti að haga slíkum málum.

Þetta er einn vinkill á þessu sem þarf að laga, en það er líka mikilvægt að til lengri tíma sé hugsað um þennan málaflokk í áratugum í það minnsta vegna eðlis málaflokksins og sér í lagi vandans sem er fyrirsjáanlegur á næstu árum og áratugum.