145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Er virkilega verið að ræða þetta á þeim nótum að þetta snúist um það að menn drekki eina flösku af víni á mánuði og að það skapi ekki mikið vandamál að það fari upp í tvær?

Við erum ekki að ræða þau mál. Við erum hér að tala um heildarmyndina og við erum að tala um þá sem ekki höndla það auðveldlega að umgangast þessa vöru. Það eru þeirra hagsmunir, þeirra fjölskyldna og þeirra barna, sem eiga að vera í öndvegi þegar við leggjum mat á málið.

Já, sjálfstæðismenn, ungliðar, reyna að nota það sem rök hvað það hafi verið hallærislegt að einhverjir hafi ekki stutt áfengan bjór. En hver er veruleikinn? Frá því að bjórinn var leyfður árið 1989 hefur vínneysla á mann farið úr 4,3 lítrum í 7,5 lítra. Rannsóknir sýna að einkavæðing eykur söluna enn meira. Hverjar geta afleiðingarnar orðið? Til dæmis stóraukin tíðni skorpulifrar, til dæmis aukin sjálfsvíg, til dæmis slys í umferðinni, til dæmis varanleg örorka, til dæmis ómældar mannlegar hörmungar, þúsundir sundraðra fjölskyldna vegna þeirra vandamála sem tengjast ofneyslu áfengis.

Það er þetta sem við skulum ræða, hv. þingmaður.