145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, vill maður ekki bara trúa því að ástæðan sé sú, þegar menn fjalla ekki einu sinni um þennan þátt, ýta honum bara til hliðar, að þeir hafi hreinlega ekki kynnt sér hann? Ég á svo erfitt með að sjá hvernig menn gætu verið jafn brattir í stuðningi sínum við málið ef þeir hefðu einfaldlega kynnt sér þetta. Það þarf ekki nema bara landlækni og gögn frá honum til. Við getum tekið norrænar rannsóknir og norræna stefnumótun á þessu sviði. Við getum tekið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, t.d. svæðisskrifstofu hennar í Kaupmannahöfn sem hefur mikið gefið út um þessi efni o.s.frv. Listinn er ansi langur og hann er ansi dapurlegur ef við lesum í gegnum hann um allar þær afleiðingar sem ofdrykkja áfengis hefur í för með sér og t.d. dagdrykkja, ef hún vex við svona aðstæður. Það einfaldlega vex fjöldi fólks með áfengissýki, langvarandi heilsuvandamál, skorpulifur, heilarýrnun, tauga- og vöðvaskemmdir, langvinn geðræn vandamál, áfengistengd krabbamein, það verða fleiri veikindadagar frá vinnu, fjöldi sundraðra fjölskyldna og vanræktra barna eykst, ofbeldi eykst og drykkja við akstur. Allt þetta er þarna. Þetta eru tölulegar dapurlegar staðreyndir (Forseti hringir.) sem rannsóknir sýna mjög vel að við þyrftum að búa okkur undir að mundu vaxa nokkurn veginn (Forseti hringir.) í réttu hlutfalli við aukna áfengisnotkun. Það er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir.