145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er stuðningsmaður málsins og ég er ekki í Sjálfstæðisflokknum og ekki í stuttbuxum. Mér finnst heldur ekkert sérstaklega spennandi að ræða það hvort þetta sé eitthvert sérstakt forgangsmál eða eitthvað slíkt, það er fullt af málum sem koma fyrir þingið og þetta er bara eitt af því sem hefur síendurtekið verið rætt í þinginu og fjölmargir hafa áhuga á þessu, þar á meðal ég. Það er ekkert sérstakt forgangsmál í mínum huga endilega að samþykkja þetta, þetta er ekki ástæðan fyrir því að ég er í pólitík, en mér finnst málið hins vegar mjög áhugavert og ég styð það.

Eitt og annað í málflutningi hv. þingmanns vekur athygli mína. Það er eitt sem mig langar að spyrja út í. Er það í hans huga algjör forsenda fyrir takmörkun á aðgengi — ég held að það sé vissulega mjög mikilvægt að takmarka aðgengi að áfengi með einhverjum hætti — að ríkið reki verslanirnar? Mér sýnist það ekki vera þannig skrifað í þennan málaflokk. Það er eiginlega lagt að jöfnu t.d. í mjög viðamikilli skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (Forseti hringir.) hvort ríkið reki verslanirnar eða ríkið setji lagaumgjörðina um það hvernig verslanirnar skuli reknar. Er (Forseti hringir.) hv. þingmaður sammála því að þetta sé í rauninni jafn gilt?