145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur aðeins komið upp í sambandi við EES-réttinn og mögulega árekstra þar. Það er ljóst að við getum haft þetta fyrirkomulag á. Við höfum undanþágu til þess og við höfum nokkurn veginn fengið frið með það þó að ýmislegt hafi nú gengið á. En um leið og ríkið væri að afhenda einkasölu sína yfir á einkamarkaðinn hljóta að geta komið upp ýmis sjónarmið um hvernig það væri þá gert; það lítur alla vega ekkert sérstaklega vel út ef það fer nánast beint í hendurnar á örfáum fákeppnisrisum.

Aðrir aðilar gætu hugsanlega kært á grundvelli EES-réttarins. Það eru minni verslanir ýmsar sem ekki eiga að fá að selja áfengi samkvæmt þessu frumvarpi. Er það ekki brot á jafnræði? Ef þetta er komið út á einkamarkaðinn verða þá ekki allir að sitja þar við sama borð? Ég er ekkert frá því að við ættum eftir að sjá ýmis kærumál yrði farið út í þetta á annað borð.

Ég nefndi sérstaklega Danmörku og Grænland í hinum norræna samanburði mínum. Það blasir við og stendur upp úr að þar eru vandamálin langmest og þar er það fyrirkomulag áfengissölu við lýði sem aðstandendur þessa frumvarps vilja koma hér á.