145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki þannig að alls staðar í útlöndum sé áfengi í matvörubúðum og þess vegna höfum við einmitt samanburðinn á milli landa. Við höfum meira að segja rannsóknir sem sýna breytingar á áfengisneyslu í Svíþjóð þegar Svíar breyttu stefnu sinni í ríkisrekstur frá einkarekstri. Rannsóknir sýna okkur að skrefið sem við ættum alls ekki að stíga í þessu máli er að auka aðgengi. Ef við erum ekki algjörlega ófær um að læra af reynslu annarra þá eigum við auðvitað að taka tillit til þess.

Þurfum við að reyna það á okkar eigin kroppi hver samfélagslegur og heilsufarslegur kostnaður yrði af því að setja áfengi í matvörubúðir? Við vitum að það mun valda kostnaði, bæði líkamlegum og andlegum.