145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get upplýst hv. þm. Oddnýju Harðardóttur um að ég hef ekki kynnt mér í þaula þessar rannsóknir. Mér finnst miklu eðlilegra að horfa á veruleikann sem blasir við mér. Það er miklu betri rannsókn. Það er veruleiki að hér, þrátt fyrir gífurlega fjölgun vínveitingastaða, útsölustaða, hefur dregið úr áfengisneyslu ungs fólks. Meira þarf ég ekki. Ég þarf ekki einhverja ameríska könnun. Ég bara horfi á þetta. Svona er þetta.

Þetta er kannski ekkert prinsippmál hjá mér, ég er nú heiðurshollvinur númer eitt hjá ÁTVR. Þetta er ekki stórmál fyrir mig, en þetta er samt ákveðið prinsipp og þetta er venjuleg vara. Hv. þingmaður sagði að þetta væri ekki eins og hver önnur vara. Vara sem er almennt notuð í landinu er almenn neysluvara, er vara eins og hver önnur vara. Við eigum ekki alltaf að miða við þá sem ekki ráða við vöruna.