145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla einmitt að spyrja hv. þingmann út í þennan samanburð við Danmörk. Mér finnst í umræðunni verið að einfalda þetta flókna mál fullmikið. Það eru fjölmargir faktorar að mínu viti, ég býst við að það sé líka af hálfu hv. þingmanns, sem ráða því hvernig áfengismenningin er í hverju landi og hvað mikið er drukkið. Ég hef heyrt áður hér í umræðunni að það er borið saman við Danmörku og sagt: Sjáið þið ungmennadrykkjuna í Danmörku, hún er rosalega mikil, enda er áfengi þar leyft í matvöruverslunum.

Hv. þingmaður og fleiri þingmenn sem hafa notað þennan samanburð geta þess ekki, kannski er það vísvitandi, ég veit það ekki, að sá meginmunur er á Íslandi og Danmörku þegar kemur að áfengissölu að áfengiskaupaaldurinn er 16 ár í Danmörku en 20 ár hér. Miðað við þær rannsóknir sem ég hef lesið og þær skýrslur sem ég hef lesið er aldurstakmarkið mun áhrifaríkari þáttur til minnkunar á neyslu áfengis, ég tala nú ekki um þegar kemur að drykkju ungmenna, en nokkurn tímann rekstrarformið á verslun með vínið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hún þeirrar skoðunar að þessi munur á áfengissölu í Danmörku og Íslandi eigi ekki erindi inn í þennan samanburð og sé jafnvel veigameiri þáttur en nokkurn tímann það hver selur vínið?