145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var í sjálfu sér ekki að biðja hv. þingmann að vega það og meta hvor væri veigameiri þáttur í hennar huga, aldurstakmarkið eða reksturinn. En í mínum huga, ég beiti bara mínu hyggjuviti í því, finnst mér það blasa við að það hlýtur að vera áhrifamikill faktor í áfengisstefnu hvers lands hvert aldurstakmarkið er. Ef við berum saman ungmennadrykkju, eins og hér er síendurtekið gert í umræðunni, milli Íslands og Danmerkur og þess ekki getið að aldurstakmarkið í Danmörku er 16 ár en 20 ár hér, þá finnst mér það ekki málefnalegt. Mér finnst það ekki sanngjarnt. Mér finnst það umræðunni ekki til framdráttar. Það getur vel verið að í matvörubúðum sé einhver faktorinn líka, en þá vil ég segja eins og hv. þm. Brynjar Níelsson að það er dálítið merkilegt að horfa upp á íslenska dæmið í því samhengi, vegna þess að eins og hv. þingmaður rakti í ræðu sinni áðan þá hefur aðgengi aukist mjög mikið að áfengi á Íslandi, svo mikið að hv. þingmaður notaði orðalagið „það er orðið nægilegt aðgengi“. Það hefur gerst á undanförnum árum. Samt hefur unglingadrykkja farið niður. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja: Hvernig má það vera? Bendir það ekki til þess að það séu margir aðrir faktorar sem ráða (Forseti hringir.) því hvernig áfengismenningin er heldur en bara aðgengið?