145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við Íslendingar höfum montað okkur svolítið af því að hafa náð unglingadrykkjunni niður á undanförnum árum og forvarnastefnan okkar hafi virkað og litið hefur verið til okkar. Ég vil ekki offra þeim árangri. Alls ekki. Hins vegar er það bara þannig og það er alveg sama hvernig við snúum þessu til eða frá, að aukið aðgengi og verð á áfengi hefur langmest áhrif á áfengisdrykkju. Það eru fleiri, fleiri þúsundir kannana, samantekta, bæði vestan hafs og austan, sem sýna þetta. Það er aðgengi og verð. Það sem við erum að tala um er að auka aðgengið umtalsvert og við gerum það en hv. flutningsmenn frumvarpsins gera það án þess (Forseti hringir.) að benda á hvar eigi að taka peningana fyrir þeim kostnaði sem frumvarpið mun valda verði það að lögum.