145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans.

Ég er ekki sammála honum um grunnsjónarmiðin og ekki heldur um ýmsar fullyrðingar hans til dæmis varðandi tóbakið sem hann segir vera núna aðgengilegra en áður var. Ég man nú bara að fyrir 20, 30 árum þegar ég kom inn á vettvang verkalýðshreyfingarinnar var reykt á hverjum einasta fundi, í hverri einustu opinberu skrifstofu var reykt. Nú er búið að takmarka það mjög. Í verslunum þar sem tóbak er til sölu er það falið. Þess er gætt að börnin komist ekki að því. Sölumátinn breyttist hins vegar. Álagningin á tóbak stórjókst fyrir neytandann. En látum það liggja á milli hluta.

Hv. þingmaður segir að öfgar hafi verið í þessari umræðu. Menn geri því skóna að talsmenn frumvarpsins séu málsvarar lifrarbólgu og krabbameins í hálsi o.s.frv. Á hinn veginn get ég bætt því við að okkur er gert upp að vera málsvarar fortíðarsjónarmiða o.s.frv. (Forseti hringir.) Grunnhugsunin sem við erum að tefla á byggir hins vegar á skýrslum sem fram hafa komið frá (Forseti hringir.) heilbrigðisyfirvöldum, frá grasrótarsamtökum sem öll eru að biðja okkur um að hafna (Forseti hringir.) frumvarpinu. Telur þingmaður Bjartrar framtíðar virkilega að ekki eigi að hlusta á þá aðila?