145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér svaraði hv. þingmaður sjálfur spurningunni um það hvað aukið aðgengi gerir. Hann vitnaði til þess að á tíu stöðum hér handan við völlinn væri hægt að kaupa áfengi hvenær sem væri. Það er einmitt mergurinn málsins. Aukningin sem orðið hefur síðan 1989 er ekki í verslunum ÁTVR nema að litlu leyti, hún er á veitingastöðunum. Hún er þar sem aðgengið hefur verið aukið. Þar er aukningin.

Síðan talaði hv. þingmaður um að við Íslendingar kæmum og gerðum stórinnkaup á áfengi fyrir helgar því við ætluðum að detta hræðilega í það. Þetta væri nú ekki svo í menningarlöndum hér í kringum okkur. Ég var staddur í danskri verslun á föstudaginn var. Þar voru stútungar á aldur við mig að kaupa skammtinn sinn fyrir helgina. Það voru svona tveir til fjórir kassar af öli. Þeir hefðu nú getað komið þarna á mínútu hverri og keypt sér eina og eina flösku ef þeim hefði dottið það í hug. Þvílíkt er nú frelsið. En stórkaupin voru nú svona.

Og af því að hv. þingmaður sagði: Það er eins og við séum að stíga rosalegt skref. Já, við erum að því. Við erum að stíga skref sem mun auka hér áfengisneyslu á hreinum vínanda á mann úr sjö lítrum í ellefu. Það er rosalegt skref.