145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held raunar að aðgengi hái ekki áfengisneyslu á Íslandi. Ég held að allir þeir sem vilja ná sér í áfengi geti náð sér í áfengi. Þess vegna finnst mér, eins og ég rakti í ræðu minni, skrefið sem á að stíga með frumvarpinu ekkert sérstaklega stórt. Ég get stutt það. Ég sagði líka í ræðunni að ég geti skilið margar hömlur. Til dæmis eru góð sjónarmið fyrir því í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að ekki sé skynsamlegt að selja áfengi á bensínstöðvum. Mér finnst það vera svolítið gott sjónarmið. Ég get tekið undir það. Mér finnst skynsamlegt að vera með aldurstakmark á sölu áfengis í matvöruverslunum. Mér finnst mörg sjónarmið mæla með því að selja áfengi með mat eins og ég rakti í ræðunni. Margt bendir til að heilbrigð áfengisneysla sé sú áfengisneysla sem er með mat. Af hverju þá ekki að selja vín með mat?

En hins vegar (Forseti hringir.) er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig raunverulega róttækt frumvarp um breytingar á áfengislöggjöf (Forseti hringir.) og menningu Íslendinga mundi líta út. Það eru náttúrlega fjölmargir þættir sem þyrfti að hreyfa við til að það yrði mjög róttækt. Þetta er ekki róttækt frumvarp að mínu viti.