145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst athyglisvert að hv. þingmaður er ekki hlynntur verslunarfrelsi með þessa vöru. Hann telur sem sagt skynsamlegt að setja hömlur. Spurningin er þá um hvers konar hömlur. Þingmanninum til upplýsingar þá er áfengi selt á bensínstöðvum. Næst þegar hann fer upp í Borgarfjörð, sem ég veit að er honum kær, getur hann stoppað á bensínstöð Olís í Borgarnesi og þar er selt áfengi. Það er veruleikinn sem við okkur blasir núna.

Þá er kannski önnur spurning, af því að hann talar um áfanga eða þróun. Nú hafa nágrannar okkar, Norðmenn og Finnar, tekið það skref að hafa millisterkan bjór í búðum en ekki brennda drykki eða sterkara áfengi. Væri það einhvers konar meðalhófsskref sem þingmaðurinn teldi koma til álita til að þróa höndlun með þessa vöru áfram eða taka varfærnari skref fyrst hann telur að sjónarmiðum um heilbrigðismál þurfi að taka mið af?