145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það með hv. þingmanni að einstakir þingmenn geta haft persónubundnar og málefnalegar ástæður fyrir sínum stuðningi eða eftir atvikum andstöðu við málið og virðingarvert að það komi þá fram.

Hitt uppleggið fannst mér ekki gott, að fara að tala eins og að við sem vörum við frumvarpinu og drögum fram það sem eru nokkuð vel staðfestar og rökstuddar óumflýjanlegar afleiðingar af aukinni áfengisneyslu og nefnum það og vísum í rannsóknir, hvort sem það er aukin skorpulifur, aukið heimilisofbeldi, aukin áfengisakstur eða eitthvað því um líkt, séum við að segja að aðstandendur frumvarpsins vilji það. Það hef ég engan heyrt segja. En á hinn bóginn getur hv. þingmaður og aðrir aðstandendur málsins ekki ætlast til að við sleppum því af tillitssemi við flutningsmennina eða stuðningsmennina að nefna þessa hluti eins og þeir eru. Svo langt er ekki hægt að ætlast til að ganga. (Forseti hringir.) Vegna þess að það liggur fyrir þannig að hafið er yfir rök hverjar afleiðingarnar verða af aukinni áfengisneyslu. Þar þarf ekki bara að vísa til Íslands, það er alþjóðlega viðurkennt að því fylgja aukin vandamál.