145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vekur mér ólund og óþol í þessari umræðu að mér finnst myndin sem dregin er upp af andstæðingum frumvarpsins of einföld. Ég bendi til dæmis á, eins og ég hef bent ítrekað á í ræðum hér í dag, að margir faktorar hafa áhrif á það hver áfengisneyslan er í lítrum talið og eins hvernig áfengismenningin er. Hvort áfengi sé misnotað. Ég hef nefnt dæmi um bjórinn, bjórinn jók áfengisneyslu en ég held og margar rannsóknir styðja það, til dæmis eins og minni drykkja ungmenna, sem benda til þess að áfengismenningin hafi batnað og aukið frelsi í þessum efnum hafi bætt menninguna. Ég er að segja þetta. Mér finnst þess vegna ekki rétt að fullyrða að það skref sem á að stíga í frumvarpinu muni (Forseti hringir.) alveg augljóslega valda öllum þessum vandamálum sem er verið að taka upp, eins og það séu ekki margir aðrir og að mínu viti veigameiri faktorar sem mundu stuðla að þessum vandamálum en þetta.