145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að tala gegn flutningsmönnum eða stuðningsmönnum málsins. Ég er að tala gegn málinu með rökum. Það verða þeir sem eru andstæðrar skoðunar að þola.

Varðandi notkun frelsishugtaksins sem hv. þingmaður var með og mikið er talað um frelsi og verslunarfrelsi eða hvað það nú er. Hverjir eru þeir sem eru sviptir frelsi þegar kemur að umræðum um áfengismál? Það eru þeir sem eru róðrarþrælar á galeiðu áfengissýkinnar. Þeir eru hinir einu ófrjálsu menn í þessu sambandi. Þeir, fjölskyldur þeirra, aðstandendur, foreldrar, börn, makar o.s.frv. Það er ekki síst frelsi þeirra, að allt sem við getum gert til að draga úr því böli og þeim vandamálum, sem mér finnst að eigi að ráða. Líkurnar falla allar á þá hlið. Fagstéttir og sérfræðingar vara við því að þetta muni leiða til aukinnar neyslu og aukinna vandamála. Hver á þá að njóta vafans? Ekki er hægt að deila um það hvert líkurnar falla. Það væri málefnalegra að deila um hversu (Forseti hringir.) stórt útslagið verður, hversu mikil áhrif er þetta líklegt til að hafa. Ekki í hvaða átt það fer.