145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta muni hafa einhver áhrif. Ég færði rök fyrir því að ég teldi líkur á að þetta mundi hafa þau áhrif að áfengismenningin mundi batna, við mundum hætta að misnota áfengi. Mér sýnist íslensk áfengismenning vera einmitt þannig að við seljum áfengi í sérstökum búðum og alltaf þegar á að halda upp á eitthvað eða gera eitthvað er farið í þá búð og keypt umtalsvert magn svo að allir geti dottið í það. Þetta hefur verið áfengismenningin á Íslandi. Fólk kaupir áfengi í Fríhöfninni til að fara með heim til sín og hamstra þar á meðan áfengi með mat er miklu skynsamlegri neysla. Af hverju skyldi áfengismenningin ekki breytast til batnaðar? Og enn og aftur: Er ég þegar ég held fram rökum þessu máli til stuðnings á einhvern hátt að horfa fram hjá áfengissýki og því böli sem áfengi veldur mjög mörgum?

Ég held því hins vegar fram að frelsi sé ekki andstæða lýðheilsu. Ég held að hægt sé að hafa frjálst og ábyrgt (Forseti hringir.) samfélag og stunda lýðheilsu. Ég held raunar að þetta fari saman. Það kemur fátt í staðinn fyrir ábyrgð einstaklinga á eigin gjörðum og eigin lífi, líka í umgengni við áfengi. Ég held að íslenskt samfélag sé alveg komið á þann stað að við getum stigið það skref án mikilla hörmunga.