145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak ofl.

13. mál
[18:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður segir að það komi henni í raun á óvart að við skulum vera að ræða þetta mál hér. Ég get tekið undir það með henni. Hv. þingmaður talaði um rannsóknir og hvað aðrar þjóðir með virta vínmenningu, ef svo má að orði komast, væru að hugsa í þessu samhengi. Flutningsmenn þessa frumvarps telja, a.m.k. sumir, að einmitt þessi góða vínmenning sé svo eftirsóknarverð og muni fylgja auknu aðgengi.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því, nái þetta frumvarp fram að ganga, að það sé byggt á — nú ætla ég ekki að segja vanþekkingu heldur frekar að flutningsmenn hafi ekki kynnt sér nægilega vel alþjóðlegar rannsóknir í þessu máli. Í útlöndum, eins og hv. þingmaður benti á, er þessu háttað með margvíslegum hætti. Þess vegna höfum við aðgang að rannsóknum sem gefa okkur færi á að bera alla þessa hluti saman. En flutningsmenn vilja lítið ræða þær rannsóknir og gera lítið úr þeim.

Mér finnst mikilvægt að við reynum að læra af reynslu annarra og förum ekki út í slíkar breytingar, tökum áhættuna og gerum hluti sem auka líkur á vanda hér heima. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessu eins og ég.