145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður bendir einmitt á að aukið aðgengi mun auka neysluna. Við leyfum okkur að fullyrða það vegna þess að margar rannsóknir sýna það. Hins vegar stendur þessi setning á bls. 12 í skýringu með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.“

Þetta er hreinlega í skýringum. Þegar flutningsmenn meta hér áhrif á neyslu draga þeir í efa eitthvert varanlegt orsakasamhengi þó að við getum vísað í rannsóknir sem eru bæði gamlar og nýjar hvað það varðar.

Það er talað um forvarnastefnu og við höfum náð góðum árangri í forvörnum þegar kemur að unglingadrykkju. Hins vegar séu þau lönd þar sem áfengi er selt í matvörubúðum að þar hafi ríkin ekki náð eins góðum árangri. Ég vil því spyrja hv. þingmann, sem er fyrrverandi menntamálaráðherra og þekkir væntanlega þessar rannsóknir, hvort hún hafi ekki áhyggjur af því, verði þetta frumvarp að lögum, að taka áhættuna af því að offra þeim árangri sem við höfum náð á Íslandi og litið hefur verið til þegar kemur að minni unglingadrykkju. Það er ekki bara í Danmörku, það er í fleiri löndum þar sem þetta vandamál er þegar áfengi er selt í búðum.