145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Algjörlega. Mér finnst mjög mikilvægt að í þessari umræðu sé líka fjallað um áfengi og hvað áfengi er. Áfengi er eiturlyf. Það er í flokki með amfetamíni þegar kemur að styrkleika og áhrifum. Því vil ég að þingmenn velti því fyrir sér hvort þeir væru tilbúnir til þess að hafa amfetamín til sölu í apótekum til dæmis. Af hverju má ekki selja hasskökur og alsælu undir ágætu eftirliti með gæðakröfum o.s.frv.? Ég sé ekki neinn rosalega mikinn mun þarna á, nema þann að áfengi er samfélagslega samþykkt sem eiturlyf. Í öðrum löndum er til dæmis kannabis samþykkt sem samfélagslega eiturlyfið. Mér finnst gleymast að þau áhrif sem áfengi hefur á marga brjótast oft út í því að fólk missir stjórn á sér, hvort sem það er í orði eða með hnefanum. Ég þekki mjög vel til þessa. Ég var mjög lengi í samtökum fyrir aðstandendur alkóhólista og fékk þann heiður að halda utan um nýliðafundi og það sem ég varð vitni að út af áfengi, ég mun aldrei gleyma þeim sögum. Ég mun aldrei geta lifað með því að stuðla að slíku ofbeldi sem það fólk sem ég fékk að leiðbeina fór í gegnum. Það hafði gríðarlega djúpstæð áhrif til langtíma á þessa aðila.