145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil árétta að umræðan um þjóðaratkvæðagreiðslurnar í ræðu minni var beinn upplestur úr minnisblaði læknisins ágæta. Ég tel persónulega ekki þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál því að það hefur ítrekað komið fram hver vilji þjóðarinnar er í marktækum skoðanakönnunum.

Ég held að alltaf þegar maður er með einhver málefni sem brenna á þjóðinni þá kemur það mjög skýrt fram og ég er sammála þingmanninum, ég hef ekki skynjað mikla kröfu um þessa auknu þjónustu.

Ég hjó eftir því í andsvari hjá einum hv. þingmanni áðan um þessi mál að hann benti á að ef við værum með áhyggjur af heilsufari ættum við að líta til mataræðis og offitu. Málið er ég hef ekki hitt neinn sem hefur misst stjórn á skapi sínu á þann veg að hann skaði annað fólk reglubundið af því að hann borðar hamborgara. Aftur á móti er áfengi þess eðlis að fólk, sér í lagi það sem á við alkóhólisma að stríða, missir oft stjórn á sér. Það er mjög falið. Það er bara þannig. Þetta er mjög dulinn sjúkdómur og oft til margra ára þar sem fjölskyldan þjáist mjög. Það er allt gert til að fela ástandið á heimilinu. Það þekkja allir sem hafa eitthvað unnið með þennan sjúkdóm. Þetta er ekki einungis um réttinn til að hafa aðgengi að áfengi. Þetta er líka til dæmis um rétt barna og maka til að búa við einhvers konar öryggi. Ég hef áhyggjur af því að (Forseti hringir.) fólk sem er á fallbraut falli fyrr og við munum ekki geta staðið undir því sem er í vændum af því að heilbrigðiskerfið okkar er í molum.