145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að áfengi veldur kostnaði, ekki bara í formi peninga heldur einnig í formi heilsu og í mörgum tilfellum hamingju og lífi. Samt vefst þetta enn þá fyrir mér. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann að spurningu sem hljómar kannski hálfróttæk eða undarleg, en mér finnst allt í lagi að við spyrjum okkur að því hvort okkur þyki í raun og veru siðlegt að ríkið hagnist á vímuefnasölu. Ef ég sel vímuefni þá væri siðferðileg spurning innifalin í því. Ef ríkið ætlar að sinna þessari þjónustu þá finnst mér ekki að ríkið eigi að vera stikkfrí frá þeirri spurningu. Af hverju er það siðlegra þegar ríkið sinnir þjónustunni? Mér finnst það í raun bara vera siðlegt á þeim forsendum að ríkið sé þá að berjast við þetta tiltekna vandamál. Annars sé ég ekki siðferðilega réttlætingu fyrir því. Þess vegna átta ég mig ekki á því hvers vegna þetta gjald fer ekki í einhvers konar verkefni tengd afleiðingum af áfengisneyslu.