145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:26]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns frá því hann flutti fyrri ræðu sína, hvort hann hafi meiri áhyggjur af því að aðgengi að vörunni skerðist, aðgengi og úrval af áfengi og vöruverð hækki úti á landsbyggðinni, eða öfugt. Og hvort hann hafi í því samhengi kynnt sér talnagrunn landlæknisembættisins sem sýnir nýjustu tölur varðandi áfengisneyslu þjóðarinnar og hvað virðist hafa mestu áhrif þar á. Mér þykir þetta skipta miklu máli. Það er ýmist talað um að aðgengi og þjónusta um landsbyggðina muni skerðast, en í hinu orðinu er verið að gagnrýna frumvarpið fyrir að auka aðgengi að þessari vöru sem mun þá auka neysluna. Ég viðurkenni það, hæstv. forseti, að ég átta mig ekki alveg á því hvorum megin áhyggjurnar liggja hjá þeim sem eru með þennan málflutning varðandi lýðheilsuna.