145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal reyna að svara hv. þingmanni og ég ætla að reyna að svara algjörlega málefnalega og ríghalda mér í púltið til að missa mig ekki í annað vegna þess að mér finnst stutt í það þegar svona er spurt.

Það er ósköp einfaldlega þannig að víða út um landið er ýmist ein eða engin verslun á viðkomandi svæði. ÁTVR hefur undanfarin ár byggt á stefnu sem það hefur mótað um að tryggja mönnum aðgengi að þessari vöru með tilteknum lágmarksfjarlægðarmörkum og hefur sett upp litlar afgreiðslur sem eru opnar í einn til tvo tíma á dag á mjög litlum stöðum til að ná að uppfylla þessi markmið sín. Það hefur ekki verið gert í því skyni að auka almennt aðgengi að áfengi, það hefur verið gert í því skyni að menn væru nær því að sitja við sama borð. Og í ljósi þessa, og þegar maður horfir yfir stöðuna eins og hún hefur að þessu leyti verið að breytast undanfarin ár, þá efast ég mjög um að aðgengi muni batna að þessari vöru svo neinu nemi á landsbyggðinni nema á örfáum stærstu stöðunum þar sem eru margar verslanir og jafnvel versna á mörgum stöðum, litlum stöðum, í þeim skilningi að það verði miklu minna úrval og miklu lélegri þjónusta.

Við erum að tala um allt annan veruleika hér á stóra þéttbýlissvæðinu. Hér eru hundruð verslana sem munu hefja sölu á áfengum drykkjum. Fjöldi þeirra mun margfaldast, tugfaldast, augljóslega t.d. hér á þessu svæði. Þar erum við að tala um stóraukið aðgengi sem mun örugglega leiða til aukinnar neyslu. Það eru kannski veigamestu rökin að þegar við erum að tala um aðgengi þá erum við að tala um það svæði landsins, þau stóru þéttbýlissvæði og fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem við mundum búa við allt annan veruleika í þessum aðgengismálum ef þetta frumvarp næði fram að ganga.