145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að upptalning á fjölda sveitarfélaga segi nú ekki mikið í þessum efnum, það vantar ekkert sérstaklega upp á aðgengi íbúa Tjörneshrepps, þeirra 70 sem búa þar, að áfengi þó ekki sé verslun í þeirra sveitarfélagi. Það er stutt á Húsavík. Það þarf að horfa á það hvernig þetta er í veruleikanum á hinum einstöku stöðum.

Jú, ég get alveg viðurkennt það. Í einstöku tilvikum, þar sem lítil verslun er að þrauka í byggðarlagi, þar sem ekki er í boði þjónusta frá ÁTVR, þá gæti það hugsanlega eitthvað styrkt grundvöll þeirrar verslunar að selja líka áfengi sem menn sækja annars í nálægt byggðarlag. En þó er það þannig að þegar þetta er rætt við forsvarsmenn margra minni verslana á landsbyggðinni þá vilja þeir ekki þetta fyrirkomulag. Margar af þekktustu kaupmannaverslunum á landsbyggðinni, nokkrir fulltrúar þeirra, komu nú fyrir efnahags- og viðskiptanefnd til að ræða þennan þátt sérstaklega, þeir voru grjótharðir á móti málinu. Þeir telja fyrirkomulagið (Forseti hringir.) eins og það er í dag gott, og ekki endilega víst að það yrði þeim til framdráttar að þurfa að fara að selja áfengi í sínum búðum, ef það væri komið út í búðir almennt, til þess að veita sínum kúnnum þá þjónustu. Þeir hafa meiri áhuga á því að vera kaupmennirnir (Forseti hringir.) á horninu með þær vörur sem þeir eru að versla með í dag heldur en að fara út í að liggja með lager af brennivíni.