145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að árangurinn eða mælingar á því fyrirkomulagi sem við höfum viðhaft í þessum efnum benda sterklega í þá átt að það fyrirkomulag hafi gefist vel. Þeir sem vilja breyta því ættu náttúrlega að þurfa að hafa verulega fyrir því að rökstyðja það þá og segja öðrum hvers vegna ætti að gera það, hvaða vandamál á að leysa, hvað á að bæta með því að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Þær röksemdir að það verði aðeins auðveldara fyrir þá sem vilja ná sér í áfengi með matnum eða eitthvað því um líkt eru nú ekki sterkar þegar horft er til dæmis til þess að það er engin sérstök óánægja með fyrirkomulagið sem er í dag á meðal almennings. Það skorar mjög hátt á mælikvarða að þjónustan sé ágæt og þetta sé tiltölulega þægilegt. Er þá ekki nær að taka tillit til hinna sem eiga í erfiðleikum og um sárt að binda, aðstandenda þeirra, fjölskyldna, barna o.s.frv.? Er til of mikils mælst að þeir sem eru þá svo heppnir að geta umgengist áfengi án teljandi vandamála og farsældar og með farsælum hætti búi þá við þetta fyrirkomulag í þágu þeirra markmiða sem við teljum okkur vera ná fram með því?

Ég vil þó segja aðeins um stöðu umræðunnar um áfengi versus til dæmis tóbak að það hefur þó náðst viss árangur og ég held að eftir svona 15, 20 ár mundi engum detta í hug að flytja svona frumvarp. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að þrátt fyrir allt hefur umræðan um þessi vandamál komist meira upp á yfirborðið. Þetta er ekki alveg sama felumálið og tabúið og það var. Menn læðast ekki til útlanda lengur til að fara í áfengismeðferð. Búið er að útrýma áfengi úr fermingarveislum, ekki satt? Drykkja á vinnustöðum líðst ekki með sama hætti og hún gerði kannski á köflum áður. Ég tel því að við höfum að sumu leyti alveg verið á réttri leið með það að umræðan um þetta sé að þroskast, (Forseti hringir.) hún er á eftir tóbakinu, ég er sammála um það, en ég mundi spá því að eftir 15, 20 ár værum við komin það langt í þessum efnum að engum mundi detta í hug (Forseti hringir.) að leggja fram svona frumvarp.