145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áður vitnað í þessa setningu og tel hana vera eina af þeim sem er ákaflega illa undirbyggð eða rökstudd í frumvarpinu, reyndar ekki gerð tilraun til þess eiginlega, þessu er bara haldið fram þvert á allar þær rannsóknir og staðreyndir sem menn hafa vitnað til. Ég held að ákafi manna í því að knýja þetta mál áfram hér og nú sé kannski sprottinn að einhverju leyti af því að innst inni átti aðstandendur málsins sig á því að þeir séu smátt og smátt að tapa umræðunni. Hún er að breytast og viðhorf almennings er að breytast. Stuðningur við þetta hefur minnkað ef ég veit rétt, til dæmis í mælingum í skoðanakönnunum, hann er á niðurleið og heilbrigð skynsemi almennings hefur í meira og meira mæli gert fólk fráhverft þessu. Ég tel mig finna þetta í samtölum við fólk.

Ég held að orsakasamhengið sé reyndar aðeins flóknara en bara aðgengisþátturinn einn, þ.e. aðgengið og viðhorfin, normalíseringin sem það endurspeglar, það að hafa aðgengið takmarkað og mjög stýrt og undirstrika með því hvers eðlis þessi vara er. Það er hluti af því að reyna að byggja upp rétta hugarfarið og réttu viðhorfin í umgengninni við það. Ég held að árangur okkar í tóbaksmálunum eigi til dæmis sinn þátt í þessu. Það eru merkingarnar og það hvar tóbakið er haft sem smátt og smátt færir fleiri og fleiri yfir á það borð að átta sig á og skilja og virða hvers eðlis sú vara er.

Umræðan er þung einmitt víða í löndum þar sem maður hefði seint trúað að hún ætti eftir að fara akkúrat í gagnstæða átt við þetta frumvarp. Tökum bara Frakkland, þar sem vínmenningin er nú inngróin í matarmenninguna og lífshættina. Þar er þung umræða um að Frakkar verði að fara að taka í taumana og fara í aðgerðir til að ná tökum á ástandinu. Sama má segja um Bretland þar sem menn viðurkenna almennt að Bretar hafi gert mikil mistök í áfengismálum sínum á síðustu 10, 25 árum.