145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala Landsbankans á Borgun.

[10:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að stjórnendur hafa sent frá sér yfirlýsingar og mætt fyrir þingnefnd, en staðreyndirnar sem liggja fyrir opinberlega ríma ekki við skýringarnar sem gefnar eru. Það er nú mergurinn málsins og vandamálið sem við er að etja. Það er þess vegna sem ég held að það sé mjög mikilvægt að alvöru rannsókn fari fram. Ég tek því þannig að hæstv. ráðherra leggist ekki gegn því og mun þá taka það upp á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins að við förum yfir það hvaða úrræði eru tiltæk.

Það skiptir máli að rannsaka þetta vegna þess að fyrir dyrum er frekari sala ríkiseigna. Hæstv. ráðherra lagði hér fram frumvarp fyrir jól sem hann leggur mikla áherslu á að verði afgreitt fyrir lok þessa mánaðar. Í því er gert ráð fyrir að eignasafn Seðlabankans fái í hendurnar 60 milljarða eignir og komi þeim áfram í sölu. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að stjórn eignarhaldsfélagsins sé ábyrgðarlaus af öllu sem gert er og að einstakir starfsmenn geti tekið ákvarðanir um sölu eigna allt að einum milljarði króna.

Ég segi bara, (Forseti hringir.) af reynslunni af Borgun: Það er kominn tími til að hemja þennan ábyrgðarleysiskúltúr og búa til fastari og agaðri umgjörð um sölu ríkiseigna. Við ættum að geta sameinast um það.