145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

reglugerð um árstíðabundna vöru.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það var með engum hætti ætlunin að gera lítið úr fyrirspurninni. Það er bara svolítið frískandi að fá umræðu sem snýr að neyslu áfengis á þessum forsendum eftir langa umræðu um ríkiseinokun í smásölu. Þegar það mál er rætt er það sagt vera smámál sem tímasóun sé að fjalla um hér á þinginu. En eins og þessi fyrirspurn er til vitnis um þá eru mörg smámálin kannski stórmál. Ef þeim er ekki gefinn gaumur þá smám saman, í litlum skrefum, hrakar samfélagsþróuninni. Mér finnst þetta bara ágætisdæmi, eins og ég rakti í fyrra svari mínu, um hversu langt menn hafa viljað ganga í að handstýra þjóðfélaginu. Ég held að það megi vinda ofan af því á fleiri sviðum en þessu.