145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

stefnumótun um viðskiptaþvinganir.

[10:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á því að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir framgöngu hans í máli er lýtur að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga að ef maður fer í aðgerð og er búinn að vera hluti af einhverju kerfi og ætlar síðan að snúa við út af hagsmunum innan lands og þrýstingi þá er maður í raun og veru ekki með virka utanríkisstefnu.

Í hv. utanríkismálanefnd hefur oft verið rætt um viðskiptaþvinganir og gagnsemi þeirra. Mig langaði í ljósi þeirrar umræðu, sem meðal annars hv. utanríkisráðherra hefur tekið þátt í, að spyrja hvort það standi yfir einhvers konar vinna í ráðuneytinu um að hverfa af þeirri braut að vera þátttakendur í viðskiptaþvingunum sem heyra undir þá utanríkisstefnu sem við erum aðilar að í dag. Mér finnst mjög mikilvægt að viðskiptaþvinganir séu skoðaðar í heild sinni á þeim vettvangi þar sem við eigum fulltrúa í alþjóðastarfi og langaði að heyra hvort ráðherra lumaði á einhverjum upplýsingum um gagnsemi slíkra þvingana eður ei. Mig langar líka að heyra hvort hæstv. ráðherra telji þessar viðskiptaþvinganir sem og aðrar sem við höfum tekið þátt í hafa skilað þeim árangri sem þeim var ætlað að skila.