145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

stefnumótun um viðskiptaþvinganir.

[10:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er betra að grípa til þessara aðgerða en að lenda í vopnuðum átökum. Við vitum í raun og veru ekki hvað hefði gerst í Evrópu ef ekki hefði verið gripið til þeirra þvingana sem gripið var til vegna ástandsins í Úkraínu. Ég vil þó leyfa mér að segja hér að það fyrirkomulag sem er á þessum þvingunum í dag gagnvart ríkisstjórn og Alþingi er ekkert alslæmt. Það er ákveðið ferli sem við þurfum að fara í gegnum þegar nýjar þvinganir eru samþykktar o.s.frv., en það er sjálfsagt að yfirfara þær og skoða. Það hafa komið áskoranir um slíkt og þá gerum við það. Við byrjum á að fara þessa leið eins og ég sagði áðan á embættismannastigi og kynnum þetta svo fyrir utanríkismálanefnd og sjáum hverju fram vindur. Þetta er eitthvað sem mun að sjálfsögðu taka tíma en við byrjum að minnsta kosti á þessu.