145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

skert póstþjónusta í dreifbýli.

[10:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur komið fram að Póst- og fjarskiptastofnun hefur heimilað Íslandspósti að fækka dreifingardögum í dreifbýli í annan hvern virkan dag í stað daglegrar dreifingar og er það gert samkvæmt heimild í reglugerð innanríkisráðuneytisins.

Sveitarstjórnir hafa mótmælt þessu harðlega og er ég hér með erindi frá bæði Dalabyggð og Strandabyggð þar sem þeim áformum er mótmælt. Í ályktun frá Dalabyggð segir að sem dæmi megi taka, um þær skerðingar sem verði við þetta, að bændur hafi getað pantað lyf hjá dýralækni í símatíma að morgni og fengið þau með póstinum samdægurs. Sama gildi að einhverju leyti um sendingar frá apóteki og um varahluti í búvélar sem eiga til að bila og þarf þá skjótrar þjónustu við.

Í erindi frá sveitarstjóra Strandabyggðar segir að skert póstþjónusta bitni á þeim sem hafa ekki kost á annarri þjónustu af sama toga þar sem ekki sé um aðra dreifingaraðila að ræða, auk þess sem sömu svæði búi við lítið sem ekkert netsamband. Önnur afleiðing skertrar póstþjónustu sé enn meiri fækkun starfa á landsbyggðinni og megi líkja ákvörðun sem þessari við að enn einn naglinn sé rekinn í líkkistu dreifbýlis á landsbyggðinni.

Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í þessi áform sem innanríkisráðuneytið, með breyttri reglugerð, opnar á; að Íslandspóstur geti tekið þá ákvörðun að fækka dreifingardögum til sveita og í dreifðum byggðum, en sú ákvörðun var tekin árið 2005 af þáverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, að bjóða upp á fimm daga póstþjónustu út um land allt, samanber það sem er innan Evrópusambandsins. Mér finnst þetta vera mikil aðför að þessum dreifðu byggðum.