145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

skert póstþjónusta í dreifbýli.

[10:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á að með þessari heimild í reglugerð sé verið að reka nagla í líkkistu landsbyggðarinnar. Mér finnst heldur djúpt í árinni tekið þegar svo er sagt. Ég skil alltaf þær áhyggjur sem þingmenn hafa af dreifðum byggðum, að sjálfsögðu. Ég veit að þjónusta þar skiptir mjög miklu máli. En ég held að það sé fulllangt gengið að segja að þó að heimild sé í reglugerð til að fækka póstburðardögum í þrjá, að það sé einhver sérstök aðför að landsbyggðinni. Ég fellst ekki á það.

Hér er um að ræða heimild í reglugerð sem síðan þarf að vinna áfram til að ákvörðun sé tekin um fækkun póstburðardaga. Innanríkisráðuneytið ákvað, í tengslum við breytingu á þessari reglugerð, að gera könnun á því, almenna könnun meðal landsmanna, hvernig menn litu á þjónustu póstsins, hversu oft þyrfti að dreifa pósti í hús. Niðurstaðan var satt að segja sú að töluvert miklar breytingar eru orðnar á því hvernig menn nálgast póst. Þetta hefur færst mikið á internetið eins og við þekkjum. Það kom ekki fram í þeirri könnun að almenn andstaða væri við því að meiri sveigjanleiki sé í póstburðardögum. Ég hef ekki orðið vör við þessi miklu mótmæli sem hv. þingmaður nefnir, að minnsta kosti ekki að svo komnu máli.

Ég held að menn eigi aðeins að anda rólega út af þessu. Hér er um að ræða heimild í reglugerð sem ég sé enga ástæðu til að hafa þvílíkar áhyggjur af og hv. þingmaður hefur.